Child in time – Eilífðarbarnið

Fílalag - Un pódcast de Fílalag - Viernes

Categorías:

Fílalagi barst tilkynning frá fílahjörðinni. Hlynur nokkur Jónsson sendi skilaboð og heimtaði fílun á „Child in Time” með Deep Purple, Made in Japan, útgáfunni. Í skilaboðum sínum sagði Hlynur: „Þetta lag er sturlað. Þú þarft að smella á þig headphones, setja volume-ið upp, loka augunum og drekka þetta. Algjör geðveiki.” Þetta er hverju orði sannara hjá Hlyni. Child in Time er heimsósóma sturlunin. Það er okkar Paradísarmissir. Það lýsir sannkallaðri vitstolun tímans upp úr 1970. Þegar búið var að senda mann til tunglsins og leppstríð í Asíu kistulögðu þúsundir daglega. Þegar menn í jakkafötum þrýstu á takka og fyrirskipuðu morð og valdatökur og ritstjórar keðjureyktu og ortu ljóð og hentu húsgögnum í aðstoðarmenn sína. Þá var tími fyrir nokkra graða kelta að setjast niður og semja kukl-óð sinn til eilífðarbarnsins. Child in Time, er svakalegt lag. Það er múrhúðun á fjall sannleikans. Ofsafengið testamenti um mátt greddunnar yfir óttanum. Hækkið í græjunum og drekkið, svo vitnað sé óbeint í Hlyn Jónsson. Ian Gillan og félagar í Deep Purple gefa allt í flutninginn. Það minnsta sem þú getur gert, kæra eilífðarbarn, er að gefa allt í hlustunina. Strengdu gæsahúð yfir líkamann, sperrtu hverja taug og finndu djúpfjólubláa mænudeyfinguna líða inn í miðtaugakerfið.