Hungry Heart – Glorhungrað hjarta

Fílalag - Un pódcast de Fílalag - Viernes

Categorías:

Að vera svangur er mannlegasta lífsreynsla sem til er. Það hafa allir gengið í gegnum það og því geta fylgt gríðarlegar tilfinningar. Að vera svangur er reyndar meira en mannlegt – dýrin verða líka svöng. í raun er ekkert jafn eðlilegt í heiminum og myndskeið sem sýna ljón tæta í sig sebrahesta og slafra blóðugar kjöttægjurnar. Hvaða viðbrögð kallar það fram að sjá svoleiðis? Það vekur upp jafn mikla aðdáun og það vekur upp axla-yppingu. Svona er þetta bara. Að bíta eða vera bitinn. Svoleiðis virkar hungrið, þannig virkar heimurinn. En hér var aðeins rætt um líkamlegt hungur. Hungur magans. Hvað með hungur hjartans? Það er eitthvað sem dýrin hafa ekki. Hungur hjartans er milljón sinnum áhrifameira en ljón sem sekkur vígtönnum sínum ofan í gazellu-háls. Hungur hjartans er óstöðvandi, það er sterkara en vatnsafl Dettifoss og það er sterkara en aðdráttarafl jarðar. Fílalag heldur kennslustund í dag. Umfjöllunarefnið er hvorki stærðfræði né landafræði heldur eitthvað miklu dýpra og merkilegra. Í dag verður fjallað um Stjórann, Bruce Springsteen, eða Steina eins og hann er oft kallaður. Ef þið þekkið ekki Steina þá eruð þið ómenntuð. Við erum ekki að setja okkur á háan hest en við getum frætt ykkur. Ekki vegna þess að við höfum lesið wikipedia-greinar eða leiðara í Rolling Stone heldur vegna þess að við erum bara venjulegir gaurar með hungruð hjörtu. Við erum bara gaurar sem fórum í bíltúr og snérum aldrei aftur. Í dag fer fram trúarjátning. Það eina sem við krefjumst af ykkur kæru hlustendur er að þið takið búrhníf úr eldhúsinu og rifið í sundur brjóstholið og setjið lófa yfir pumpandi hjartað og finnið hungrið. Munið gott fólk. Við erum öll handhafar lána sem heiðarlegt starf mun aldrei geta greitt upp. Hyljið andlitið með farða! Hafið hárið til! Við eigum stefnumót í gullnámunni í kvöld! Þess óska, ykkar einlægu Bergur Ebbi og Snorri