In The Air Tonight – Farið í ullarsokka og fyllið munninn af húbba búbba

Fílalag - Un pódcast de Fílalag - Viernes

Categorías:

„Við höfum margoft verið beðnir um að fíla „In the Air Tonight“ með Phil Collins,“ segir Bergur Ebbi í nýjasta þætti Fílalags þar sem orðið var við þeirri beiðni. „Það er soldið eins og að biðja mann um að draga andann. Það er eiginlega of sjálfsagt til að maður geti einbeitt sér að því,“ segir Snorri Helgason. „Ég meina hvað eigum við að gera? Sitja hérna í hálftíma og tala um hvað við fílum þetta lag mikið. Ókei. En það er ekki eins og við séum að uppgötva úraníum hérna. Þetta er einfaldlega auðfílanlegasta lag sem við höfum glímt við. Þetta lag er bara ein fjögurra mínútna fílun. Ekkert annað. Það er lítið sem við getum gert annað en að hlýða,“ bætir hann við. „Ég hef lítið við hlustendur að segja annað en að setja sig í stellingar. Það eru margar aðferðir notaðar þegar hlustað er á þetta lag. Sumir keyra bílinn sinn á 180 kílómetra hraða og sjúga upp í nefið á meðan. Það er algeng aðferð. Aðrir slökkva ljósin í herberginu og fara í hnipur á gólfið og míga pínulítið í sig. Sjálfum finnst mér best að fara í ullarsokka og setja tvo pakka af húbba búbba upp í mig og bara láta þetta koma, fearless,“ segir Bergur Ebbi. „Sammála þessu,“ segir Snorri. „Ég hef einmitt oft notað þessa tyggjóaðferð en yfirleitt fer ég í blauta krepsokka og stappa fótunum niður í hægum en öruggum takti til að halda sönsum á meðan ég hlusta,“ segir hann. Hlýðið hér á Fílalagsbræður stjarf-fíla þessa 1981-neglu Phils sem sló tóninn fyrir þeirri geðbilun sem þessi frábæri tónlistaráratugur átti eftir að reiða fram.