La Décadance – Mount Everest fegurðarinnar

Fílalag - Un pódcast de Fílalag - Viernes

Categorías:

Í nýjasta þætti Fílalags er fjallað um Serge Gainsbourg. Um hann þarf ekki að hafa mörg orð hér. Hann var einfaldlega fjallið eina. Tónlistarmaður sem var jafn mikill Frank Sinatra og hann var Dylan. Risastór, þverstæðukenndur og sérstakur. Saga hans er saga dekadantisma í poppkúltúr. Hann var siðferðislegt hrun og þeirri yfirlýsingu fylgir engin vandlæting. Lagið sem fjallað er um er epíkin sjálf, La Décadance, dúett hans og Jane Birkin frá 1971. Ef fegurðin sjálf var einhverntíman seld í sjö tommu breiðri plasteiningu þá gæti það hafa verið einmitt þar. Hlustið á þáttinn. Takið svo ofan hatt ykkar og jarðið ykkur á staðnum. Þetta er tónlist sem maður bugtar sig fyrir. Þetta lag er Mount Everest fegurðarinnar – og já það er er óður til siðferðislegrar hnignunar. Deal with it. „Hér varð siðferðislegt hrun,“ var oft sagt í tengslum við íslenska bankahrunið. Skemmtilegt. Það er einstaklega auðvelt að vera vitur eftir á þegar kemur að siðferði og það er varla hægt að ímynda sér hærra dómarasæti en að ásaka einhvern um siðferðishrun. Samt er samfélag okkar þrúgað af þesskonar umræðu. Það er allt kraumandi í mórölskum yfirlýsingum og leikreglum. Þess vegna eru sem betur til listir og menning og hlutir sem eru ekki háðir siðferði. Yfirleitt þykir það vont ef list inniheldur siðferðisboðskap. Hún á að vera yfir það hafin. Um það má deila. Það sem er hins vegar sjaldgæfara er þegar list beinlínis lýsir yfir fullkominni aðdáun á siðleysi og siðferðishruni. Oftast er það líka gimmick, gert til að ögra og vekja athygli – og það er predikun út af fyrir sig. En svo finnast einstaka listaverk og listamenn sem ná að fanga fegurð siðferðishrunsins án nokkurs rembings. Þetta er svo sjaldgæft að allt sem er haldið þeim eiginleikum er sjálfkrafa sígilt. La Décadance er ekki bara fallegt lag. Það er dýrmætt. Það er eina reipið sem liggur úr fangelsinu og þið verðið að halda fast. Haldið þéttingsfast um reipið og aldrei sleppa. Það hefði verið við hæfi að leggja niður Fílalag eftir fílun á Décadanse en við munum láta okkur nægja að fara í hungurverkfall til að sýna laginu virðingu. Þið hin. Hlustið ef þið þorið. Þetta er stórlax. Þetta er Himalayja fjallgarðurinn pakkaður saman í glassúr-dipped juntu. Fáðu þér smók og sopa af kók. Það eru jólin.