Áhrif símnotkunar og afsagnarmenning Íslands
Hádegið - Un pódcast de RÚV
Categorías:
Mörg okkar kannast við að þurfa hafa snjallsímann alltaf innan seilingar. Jafnvel bara í hendi eða augsýn - svo að engar tilkynningar eða skilaboð fari nú framhjá okkur, með öllu því áreiti - meðvituðu eða ómeðvituðu - sem því fylgir. Og kannski vildu margir eyða minni tíma í símanum - og tapa sér síður í samfélagsmiðlaskrollinu rétt fyrir háttinn. En hvers vegna er þetta svona? Af hverju getur maður stundum ekki hætt - eða lagt símann bara á hilluna? Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins útskýrir það í fyrri hluta þáttarins. Við fjölluðum á mánudaginn um mál Neils Parish, þingmanns breska Íhaldsflokksins. Hann sagði af sér aðeins nokkrum dögum eftir að upp komst að hann hefði í tvígang verið staðinn að því að horfa á klám við störf í þinginu. Þar í landi er ekki óalgengt að þingmenn og pólitíkusar axli ábyrgð með því að segja af sér, eða, geri þeir það ekki, að þeir séu látnir fara. Það sama er uppi á teningnum í nágrannaríkjum okkar annars staðar á Norðurlöndunum. En hvernig er þessum málum háttað hér á landi? Við berum íslenska afsagnarmenningu undir Ólaf Þ. Harðarson stjórnmálafræðing í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.