Allt um crypto og ESB aðildarumsókn Úkraínu

Hádegið - Un pódcast de RÚV

Categorías:

Þú átt væntanlega einhverja peninga inni á bankabók, hlustandi góður, en nú eru blikur á lofti í fjármálaheiminum. Vextir hækka eins og enginn sé morgundagurinn, olíuverð rýkur upp úr öllu valdi sem og verðbólgan. Og hvað gerir fólk þá? Einhverjir vona að tíminn góði lækni öll sár og núverandi hræringar á fjármálamarkaði séu aðeins tímabundnar, önnur leggja traust sitt á hlutabréfamarkaðinn og freista gæfunnar þar; og enn önnur sýsla með rafmyntir á borð við bitcoin! Við höfum rætt um bitcoin hér í Hádeginu, en við höfum aldrei rætt almenn um þetta fyrirbæri sem kallast crypto- eða crypto-currency. Þetta er ævintýralega flókið fyrirbæri og fyrir þau sem trúa mér ekki, mæli ég með að líta inn í hópinn íslenskir crypto-nördar á Facebook. Samræðurnar þar gætu allt eins verið á kínversku, fyrir mig allavega. Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins og þáttastjórnandi UT hlaðvarpsins Ský, fer yfir málið í fyrri hluta þáttarins. Strax í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu sóttist Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, eftir aðild að Evrópusambandinu. Stjórnvöld í Georgíu og Moldóvu gerðu svo slíkt hið sama. Fyrr í vikunni hafði fréttastofan AFP eftir ónefndum heimildarmönnum í Brussel að leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hefðu sammælst um að hefja ferli sem gæti leitt til þess að ríkin þrjú fengju inngöngu í sambandið. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins sagði á Twitter í byrjun vikunnar að umsókn Úkraínu um Evrópusambandsaðild yrði rædd á næstu dögum. Samstaða Evrópusambandsins, vinátta og aðstoð við Úkraínu ætti sér enga hliðstæðu og væri órjúfanleg. En hversu líklegt er að Úkraína - já og Georgía og Moldóva - fái inngöngu í sambandið? Og hvernig fer aðildarferlið fram? Hversu langan tíma tekur þetta allt saman? Er líklegt að innganga Úkraínu í ESB kæmi til með að hafa einhver áhrif á núverandi stöðu mála í Úkraínu? Við berum málið undir Doktor Gunnar Þór Pétursson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.