Kjarnorkuáætlun Írana og Arnar Þór um bólusetningaskyldu
Hádegið - Un pódcast de RÚV
Categorías:
Í næstu viku hefjast svo nýjar samningaviðræður um kjarnorkuáætlun Írana, en þær fara fram í Vínarborg. Og þar kennir ýmissa grasa. Ísraelsmenn, sem oft eru álitnir höfuðandstæðinar Írans í pólitískum skilningi, eiga þar engan fulltrúa en hóta að hleypa viðræðunum í uppnám með fyrirvaralausum loftárásum á kjarnorkuver Írana. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, á því við ramman reip að draga, hann segist vilja semja til að draga tennurnar úr kjarnorkuvopnaáætlun Írans en Ísraelsmenn leggja hart að honum að sniðganga viðræðurnar. Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamaður og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda er sestur hjá okkur til að ræða þessi mál Á tímum heimsfaraldurs hafa stjórnvöld víða um heim gripið til róttækra aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu heimsfaraldurs, aðgerða sem einhverjir telja nauðsynlegar, en aðrir telja gróft brot á frelsi einstaklingsins. Að undanförnu hefur umræðan um bólusetningaskyldu orðið háværari og háværari, og hafa einhver ríkið tekið hana upp að einhverju leyti. Í Austurríki er nú bólusetningaskylda og í Bandaríkjunum verða opinberir starfsmenn nú að láta bólusetja sig, hafi þeir ekki þegar gert það. Hins vegar stöðvaði dómstóll í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum tilskipun ríkisstjórnar um að skylda ætti starfsfólk fyrirtækja þar sem fleiri en hundrað starfa til bólusetningunnar. Dómstóllinn sagði alvarlega lagalega og stjórnskipulega annmarka á tilskipuninni og því yrði henni ekki beitt. Yfirvöld í Lettlandi hafa ákveðið að fara aðra og kannski sérstakari leið. Fyrir nokkrum vikum samþykkti lettneska þingið að meina þeim þingmönnum sem hafna bólusetningu við Covid-19 að taka þátt í atkvæðagreiðslum og umræðum á þingi. Og í Austurríki er bólusetningaskylda orðin að veruleika. Hér á landi eru um áttatíu og níu prósent landsmanna sem eru tólf ára og eldri fullbólusettir. Og hér á landi hefur ekki verið gripið til lagasetninga eða bólusetningarskyldu, að minnsta kosti enn. En umræðan er farin af stað, og í þeirri umræðu eru ekki allir sammála. Arnar Þór Jónsson, lögmaður samtakanna Frelsi og ábyrgð - samtaka sem ætla að fara í hart við íslensk stjórnvöld fari svo að óbólusettu fólki hér á landi verði settar viðlíka skorður og víða annarsstaðar - er gestur okkar í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.