Úkraína: Staðan í dag og framhaldið
Hádegið - Un pódcast de RÚV
Categorías:
Frá því Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipaði rússneska hernum að ráðast inn í Úkraínu aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar, hafa aðgerðir hersins stigmagnast á ógnarhraða. Nú beinast aðgerðirnar að borgum og bæjum - já um nær allt landið að Vestur-Úkraínu undanskilinni - að svokölluðum hernaðarlega mikilvægum skotmörkum, en líka að mikilvægum innviðum, að íbúðablokkum og háskólabyggingum, og ítrekað að almennum borgurum. Greint hefur verið frá því að minnst þrjú hundruð og fimmtíu almennir borgarar hafi látið lífið í árásum Rússa og yfir sjö hundruð særst, flestir þegar sprengjum hefur verið varpað, í árásum stórskotaliðs eða í eldflauga- og loftárásum. Ein og hálf milljón Úkraínumanna er á flótta og bætist ört í hóp þeirra. Þetta er mesti flóttamannastraumur í Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöld. Rússar boða enn meiri hörku. - Þeir sóttu að borgum og bæjum af miklum þunga í nótt, jafnt með stórskotahríð og flugskeytaárásum af jörðu niðri, loftárásum og flugskeytaárásum. - Úkraínsk stjórnvöld segja ljóst að rússneski herinn undirbúi nú stórsókn að höfuðborginni, Kyiv. Í síðari hluta þáttarins ræðum við við Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðing í málefnum Rússlands, um stöðuna í Úkraínu og framhaldið. En við byrjum á að heyra í rússneskum, sjálfstætt starfandi fréttamanni, - fréttaskýrandanum og álitsgjafanum Konstantín Eggert, sem flutti - eða flúði raunar - frá heimalandinu og hefur síðan starfað fyrir hina ýmsu miðla, svo sem breska ríkisútvarpið BBC og þýsku fréttaveituna Deutsche Welle. Hádegið náði tali af Eggert á árlegri ráðstefnu um Rússland, sem Baltic Defence College í Tartu í Eistlandi stendur fyrir og haldin var í síðustu viku, þar sem Konstantín var frummælandi. Hann ræddi við okkur um tildrögin að innrás Rússa í Úkraínu og þátt Vesturlandanna í þeim - og velti því upp hvaða afleiðingar innrásin getur haft í Evrópu og heimsbyggðinni allri. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.