Veðurofsi og -öfgar
Hádegið - Un pódcast de RÚV
Categorías:
Úr skæðum vetrarhörkum í Texas og vetrarstormi í Suðurríkjum Bandaríkjanna í febrúar, yfir í hættulega og sögulega hitabylgju í Norður-Ameríku í júní: Í Kanada, þar sem meðalhiti er vanalega tuttugu og fjórar gráður var áttatíu og fjögurra ára gamalt hitamet slegið - úr fjörutíu og fimm gráðum í fjörutíu og sjö komma níu gráður. Með tilheyrandi gróðureldum. Fleiri skæðir gróðureldar í Evrópu: Á Sardiníu á Ítalíu og í Katalóníu á Spáni og Kaliforníu í Bandaríkjunum - þar sem einn sá skæðasti hefur geisað í um tvær vikur með gífurlegri eyðileggingu á mannvirkjum og gróðri. Mannskæð flóð í Evrópu: Í Þýskalandi og Belgíu, þar sem um tvö hundruð týndu lífi, margir misstu allt sitt og enn er margra saknað. Flóð í Henan-héraði í miðhluta Kína. Rúmlega hundrað látnir í monsúnrigningu, flóðum og aurskriðum á Indlandi. Aurskriður í Japan. Og nú síðast: Alvarlegar viðvaranir vegna mikillar flóðhættu á sunnanverðu Englandi og í Wales eftir miklar rigningar, vatns- og þrumuveður í gær. Og hér með er eflaust ekki allt upp talið. Þegar maður dregur þetta allt saman og segir upphátt í einni bunu er óhætt að segja að þetta líti ekki vel út. En er þetta óvanalegt? Af hverju er þetta að gerast? Hvað er að gerast? Er þetta það sem koma skal eða einsdæmi? Hvað er verið að segja okkur? Hvað með Ísland? Við berum þetta allt saman undir Einar Sveinbjörnsson, sjálfstætt starfandi veðurfræðing hjá Veðurvaktinni, í Hádeginu í dag. Ræðum við hann um veðuröfgar og ofsa síðustu daga og vikur og mánuði og orsakir og afleiðingar þeirra. Hádegið verður með sérstöku og styttra sumarsniði í júlímánuði. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.