Þetta verða erfið fjögur ár, Milei kosinn forseti Argentínu

Heimsglugginn - Un pódcast de RÚV - Jueves

Categorías:

Þetta verða erfið fjögur ár, sagði Helgi Hrafn Guðmundsson sagnfræðingur um Argentínu eftir að Javier Milei var kjörinn forseti um síðustu helgi. Þeir Bogi Ágústsson ræddu saman um land og þjóð. Helgi Hrafn bjó í Argentínu í um áratug, lærði og starfaði þar. Hann segir efnahagsstefnuna lengi hafa einkennst af skammtímahugsun. Ástandið sé afar slæmt, verðbólga um 200 prósent, mjög ströng gjaldeyrishöft og gjaldmiðillinn nánast verðlaus. Helgi Hrafn segir Milei fyrst og fremst frjálshyggjumann af austurríska skólanum, hann sé öfgakenndur, vilji einkavæða allt til að koma í veg fyrir að ríkið eyði um of og leggja niður þann vísi að velferðarkerfi sem er í landinu. Fjörutíu og fimm milljónir búa í Argentínu, landið er ríkt af náttúruauðlindum, millistéttin er stór, margir starfa hjá hinu opinbera en 40 prósent landsmanna teljast vera undir fátæktarmörkum og þá má spyrja af hverju þetta fólk kjósi mann sem vill leggja niður velferðarkerfið. Helgi Hrafn segir að þegar fólk sé orðið langþreytt á ástandi sem virðist engan enda ætla að taka þá sé freisting að kjósa mann sem tali tæpitungulaust og lofi að hefja landið til vegs og virðingar og bæta efnahaginn. Milei hafi verið álitsgjafi í fjölmiðlum og boðið fram skyndilausnir sem eigi að laga ástandið.