130| Goðsögnin Pelé og árið framundan í Úkraínu
Heimskviður - Un pódcast de RÚV - Sabados
Categorías:
Brasilíumenn kvöddu sinn dáðasta son í vikunni. Knattspyrnugoðsögnin Pelé lést rétt fyrir áramót og var borinn til grafar á fimmtudaginn. Kóngurinn sem átti svo stóran þátt í að móta sjálfsmynd brasilísku þjóðarinnar og sameina hana er af mörgum talinn besti fótboltamaður sem stundað hefur íþróttina fögru. Bjarni Pétur Jónsson fer með okkur til Brasilíu. Tuttugasta og fjórða febrúar verður eitt ár liðið frá því Rússar réðust inn í Úkraínu. Innrásin hófst að morgni dags með stórsókn meðal annars að Kyiv, höfuðborg Úkraínu, en rússneskar hersveitir sóttu einnig fram í austur og suðurhluta landsins. Þeim varð nokkuð ágengt í upphafi, en undanfarna mánuði hafa átökin markast af undanhaldi Rússa á stórum svæðum í Kharkiv héraði í norðausturhluta landsins og Kherson héraði í suðri - og nokkurs konar kyrrstöðuhernaði í héruðunum Donetsk og Luhansk í austri. Rússar hafa gert ítrekaðar eldflauga- og drónaárásir á borgir og bæi; árásir sem beinst hafa að innviðum á borð við raforkukerfi Úkraínu - markvisst í því skyni að draga úr baráttuvilja almennings og valda efnahagslegum skaða. En hvernig er útlitið fyrir næstu vikur og mánuði? Björn Malmquist ræddi við úkraínsku þingkonuna Kiru Rudik, Ben Hodges, fyrrverandi yfirmann bandaríska heraflans í Evrópu og Albert Jónsson sérfræðing í öryggis og utanríkismálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.