57 | Minnkaklúðrið, norðurslóðir og Fairytale of New York
Heimskviður - Un pódcast de RÚV - Sabados
Categorías:
Í Heimskviðum í dag er fjallað um framtíð samstarfs á Norðurslóðum og áhrif kórónuveirufaraldursins á þau sem þar búa, um framtíð loðdýraræktar og svo segjum við frá sögu jólalagsins sem nú er búið að ritskoða fyrir eina af útvarpsrásum BBC. Loftslagsbreytingum hefur fylgt vaxandi áhugi á málefnum Norðurslóða, en Ísland er nú í forystu þeirra ríkja sem vinna saman á svæðinu þar sem Bandaríkin og Rússland starfa meðal annars í mesta bróðerni. En hvernig hefur þessi samvinna gengið? Má búast við breytingum með nýrri stjórn í Bandaríkjunum, og hvaða áhrif COVID-19 haft á samfélög Norðurslóða? Andri Yrkill Valsson þreytir hér frumraun sína í Heimskviðum. Danir eru með eina umfangsmestu minkarækt í heimi og ef aðeins er litið Evrópu er ræktunin langmest í Danmörku. Síðastliðinn mánuð hafa fjölmiðlar þar í landi sem og víðar fjallað um Stóra minkamálið svokallaða. Milljónum minka í Danmörku hefur verið lógað eftir tilskipun frá stjórnvöldum um að fella ætti allan minkastofn landsins. Ástæðan var kórónuveirusmit í minkum eða möguleg smit. Ákvörðunin hefur vakið miklar deilur og minkabændur mótmælt af krafti, sérstaklega eftir að í ljós kom að lagaheimild hafi skort til að ráðast í aðgerðirnar.Þessir atburðir í Danmörku hafa sett umræðu um loðdýrarækt á kortið en einnig um stærra vandamál. Vandamál sem kom kórónuveirunni af stað til að byrja með, það sem snertir heilu vistkerfin og samband manns og náttúru. Jóhannes Ólafsson fjallar um málið. Eitt vinsælasta jólalag Breta, og þó víðar væri leitað, er nú leikið í örlítið breyttri útgáfu á aðal útvarpsstöð Breska ríkisútvarpsins. Ekki eru allir sáttir við ritskoðun BBC sem klipptu út úr jólalaginu orð sem hæstráðendur þar segja særandi og meiðandi. Ástralski tónlistarmaðurinn Nick Cave hefur meðal annars blandað sér í umræðuna og segir breska ríkisútvarpið vera að rústa listaverkinu sem Fairytale of New York sé. Málið á sér ekki mörg fordæmi, enda kannski ekki mörg jólalögin sem orðn faggi og drusla koma fyrir í. Birta Björnsdóttir fjallar um jólalagið og ræðir meðal annars við Arnar Eggert Thoroddsen, aðjúnkt í félagsfræði við Háskóla Íslands, og tónistarfræðing með meiru. Arnar Eggert segist skilja vel að orð á borð við faggi og drusla komi illa við marga, en á meðan sé það dálítið eins og að krassa á Mónu Lísu að ritskoða lög með þessum hætti. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.