Ungt fólk á fasteignamarkaði, Boris og byltingi í fiskeldi

Spegillinn - Hlaðvarp - Un pódcast de RÚV

Categorías:

Fasteignamarkaðurinn er hagstæðari kaupendum en áður en hindranir enn til staðar fyrir ungt fólk. Þetta segir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. Ungt fólk eigi frekar eftir að kaupa íbúðir sem rísa í úthverfum en lúxusíbúðir miðsvæðis. Arnhildur Hálfdánardóttir talar við Guðmund Sigfinnsson hagfræðing hjá Íbúðalánasjóði. Boris Johnson forsætisráðherra Breta hefur ekki meirihluta til að ákveða hvenær verður efnt til þingkosninga en á yfirstandandi flokksþing þarf hann helst að sannfæra flokksmenn um leiðtogahæfileika sína. Forsætisráðherra talar einkum til Brexit-sinna og eykur þannig sundrung, bæði í flokknum og með þjóðinni. Hvort subbulegar fréttir um einkalíf hans hafa áhrif á kjósendur á eftir að koma í ljós. Stjórnarandstaðan treystir forsætisráðherra alls ekki og sá trúnaðarbrestur gæti brýnt hana til að sameinast um að koma honum frá. Sigrún Davíðsdóttir. Aðferðir sem hinn ófrýnilegi djúpsjávarfiskur Lúsifer beitir til að afla sér fæðu gæti nýst í hvítfiskeldi í sjó. Tilraun hér við land er að hefjast á næstunni. Koma á fyrir ljósi í búri fullu af þorski neðansjávar og ljósið lokkar átu til fisksins. Arnar Páll Hauksson talar við Hafstein Helgason.