Kaldur blettur í hitnandi heimi, Puigdemont snýr aftur til Barcelona

Spegillinn - Un pódcast de RÚV

Categorías:

Samkvæmt evrópsku loftslagsþjónustunni Kópernikus var 22. júlí síðastliðinn heitasti dagur á Jörðinni frá upphafi mælinga, og sló þar með fyrra hitamet - sem var frá deginum áður. Hlýnun Jarðar er staðreynd, og það á jafnt við um andrúmsloftið sem hafið - nema á stöku stað. Einn þessara stöku staða er heljarinnar kuldapollur eða blár blettur í hafinu suðvestur af Íslandi, sem hefur mikil áhrif á veðurfar hér, enda voru engin hitamet slegin hér á þessum heitasta degi Jarðar, eins og segir á vef Veðurstofunnar. Til að hér sé þægilega hlýtt þarf varmaflutning til landsins, segir Halldór Björnsson fagstjóri veðurs og loftslags á veðurstofunni, og þessi varmaflutningur fer annars vegar um loftið og hins vegar um hafið, sem loftið ber svo áfram. Linda Blöndal ræðir við Halldór. Lengi lifi frjáls Katalónía, sagði Carles Puigdemont, fyrrverandi leiðtogi héraðsins - á katalónsku að sjálfsögðu - þegar hann ávarpaði um 3.500 stuðningsmenn í Barcelona í morgun. Puigdemont var á Spáni í fyrsta sinn frá því hann flýði handtökuskipan spænskra stjórnvalda fyrir sjö árum. Hann hraðaði sér svo af sviðinu í fylgd félaga sinna og hugðist mæta á héraðsþingið. Það fór ekki alveg þannig. Ástæða handtökuskipunarinnar er að Puigdemont boðaði sem leiðtogi Katalóníu til atkvæðagreiðslu árið 2017 um sjálfstæði þrátt fyrir að spænskur dómstóll hefði bannað það. Að kosningu lokinni lýsti Puigdemont yfir sjálfstæði en dró það til baka í sömu ræðu. Hallgrímur Indriðason segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred