Kosningabaráttan hafin, mikil þingmannavelta fyrr og nú, örbirgð og átök í heiminum

Spegillinn - Un pódcast de RÚV

Categorías:

Þingmenn mættu til starfa á Alþingi í morgun í fyrsta skipti frá því að ríkisstjórnin sprakk. Eitt mál var á dagskrá - umræða um þingrofstillögu forsætisráðherra. Eftir ræðuhöldin fóru kjörnir fulltrúar hver til síns heima, flestir til að undirbúa sig fyrir komandi átök og koma sér á framfæri við flokksapparötin í þeirri von að fá ásættanlegt sæti á framboðslista. Ræður þeirra sem tóku til máls báru þess glöggt merki að kosningabaráttan er hafin. Freyr Gígja Gunnarsson segir frá. Í síðustu kosningum var þingmannaveltan hafi verið töluverð. Þegar kosið var 2021 settust 25 nýir þingmenn á Alþingi og 2017 voru nýju þingmennirnir 19 og 31 árið á undan. Talið er að tíu flokkar bjóði fram í kosningunum 30. nóvember, þeir átta sem eiga sæti á þingi og tveir til viðbótar - Sósíalistaflokkur Íslands og Lýðræðisflokkurinn. Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands segir breytingar á þingheimi hafa verið töluverðar og verði það líklega líka næst - Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við hana. 1,1 milljarður Jarðarbúa býr við sára fátækt, örbirgð svo mikla að viðkomandi er ómögulegt að draga fram lífið án utanaðkomandi aðstoðar. Tæplega hálfur milljarður þessa örbjarga fólks býr á átakasvæðum, þar sem ýmist ríkir hreint stríðsástand eða mannskæðar árásir og vopnuð átök eru daglegt brauð. Og nær sex hundruð milljónir eru á barnsaldri, yngri en átján ára. Verst er ástandið í Afríku sunnan Sahara og í Suður-Asíu. Þetta eru meginniðurstöður árlegrar úttektar Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna og Fátæktar- og þróunarrannsóknastofu Oxfordháskóla á fátækt í heiminum. Ævar Örn Jósespsson segir frá. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred